Námsverkefni

Ábyrgðarmaður rannsóknar sækir um heimild til siðanefndar. Nemandi er aldrei ábyrgðarmaður eigin rannsóknar en vinnur að henni undir leiðsögn ábyrgðarmanns.

Verkaskipting siðanefnda

Umsóknir skal meta af Siðanefnd LSH eða Siðanefnd FSA ef leiðbeinandi er starfsmaður stofnunar og rannsóknin er alfarið unnin innan eða á vegum FSA eða LSH með gögnum sem þar eru varðveitt.

VSN metur umsókn ef:

  • rannsóknin er samstarfsverkefni tveggja eða fleiri stofnana, óháð því hvort þær hafa eigin siðanefndir,
  • leitað er til þátttakenda utan þeirrar stofnunar sem leiðbeinandi starfar hjá (LSH, FSA),
  • rannsóknin er fjölþjóðleg með þáttöku eins eða fleiri aðila hér á landi,
  • verkefnið er klínísk lyfjarannsókn.

Afgreiðsla námsverkefna

A.  Ný verkefni:  Leggja skal umsókn fyrir viðkomandi siðanefnd. Líta ber á nemendur sem meðrannsakendur.

B.  Viðbætur við eldri verkefni sem hafa hlotið samþykki VSN eða siðanefndar stofnunar:  Leggja skal fram umsókn um viðbót og vísa í númer og leyfi fyrir upphaflegu rannsókninni. Viðkomandi siðanefnd fjallar um allar breytingar á samþykktum verkefnum þmt um nýja starfsmen/meðrannsakendur (t.d. nemendur) og hlutverk þeirra í verkefninu

Til að tryggja að umsóknir fái umfjöllun og leyfi í tæka tíð er mikilvægt að þær berist siðanefnd sem fyrst. Umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast. Fullgerðri og undirritaðri umsókn skulu fylgja tilskilin leyfi og heimildir/tilkynningar.

Rannsóknarverkefni nemenda fá sambærilega umfjöllun og aðrar vísindarannsóknir á mönnum og sömu skilyrði eru lögð til grundvallar leyfisveitingu. Ástæða er til að árétta að vel sé vandað til umsókna sem sendar eru til umfjöllunar.

Nemendur geta aldrei verið ábyrgðarmenn fyrir eigin rannsókn.

Umsókn og upplýsinga- og samþykkisblöð til þátttakenda í rannsókn skal ábyrgðarmaður undirrita.

Að gefnu tilefni skal áréttað að leyfi VSN til þess að taka upp viðtöl í rannsóknum takmarkast við að notaður sé hljóðupptökubúnaður – ekki farsími rannsakanda – og að heimildin felur ekki í sér leyfi til myndaupptöku, nema að þess sé sérstaklega getið.