Um Vísindasiðanefnd

Hlutverk

Vísindasiðanefnd metur umsóknir um rannsóknir sem fyrirhugað er að gera á mönnum og varða heilsu þeirra. Rannsóknirnar beinast að sjúkdómum og greiningu þeirra, erfðum sjúkdóma, gerðar eru tilraunir með ný lyf eða nýjar aðferðir til að greina sjúkdóma, lækna þá eða lina þjáningar.

Ráðherra skipar sjö manna vísindasiðanefnd (VSN) til fjögurra ára í senn til að fjalla um vísinda­rannsóknir á heilbrigðissviði. Einn nefndarmanna er tilnefndur af ráðherra vísindamála, einn af ráðherra mann­réttindamála, einn af Embætti landlæknis, einn af læknadeild Háskóla Íslands og einn af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Tveir eru skipaðir án tilnefningar. Ráðherra skipar formann úr hópi aðalmanna. Varamenn eru tilnefndir með sama hætti. Í nefndinni skulu sitja einstaklingar með sérþekkingu á sviði aðferðafræði heil­brigðis­vísinda, siðfræði, lögfræði og persónuverndar.

Einstaklingar sitja í VSN í krafti þekkingar og reynslu sem þarf til þess að nefndin geti sinnt hlutverki sínu. Nefndin starfar aðeins á fundum sem eru haldnir á tveggja vikna fresti yfir vetrartímann en gert er fundahlé yfir hásumarið (júlí – ágúst). Sjá auglýsta fundardaga annars staðar á síðunni.

Skrifstofa nefndarinnar undirbýr fundi hennar, veitir gögnum viðtöku, afgreiðir niðurstöður nefndarinnar, vistar skjöl hennar, veitir upplýsingar bæði til þátttakenda í rannsóknum og til þeirra sem hyggja á rannsóknir sem eru leyfisskyldar hjá nefndinni (sjá flipann Viðmið). Loks fylgist skrifstofan með og tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi systurstofnana.

 

Að jafnaði fjallar nefndin um 200 ný verkefni árlega en afgreiðslur hennar samanlagt eru um 700 – 800 á ári.