Viðmið

Faraldsfræði - fyrirliggjandi gögn

Sækja þarf um heimild til faraldsfræðilegra rannsókna (gagnarannsókna) til VSN eða siðanefndar heilbrigðisrannsókna skv 11. gr. laga nr. 44/2014. Nota skal eyðublað fyrir almenna rannsókn.

„Með faraldsfræði er átt við rannsóknir á dreifingu og áhrifaþáttum ástands eða fyrirbæra er varða heilbrigði í tilteknum þýðum. Jafnframt fæst hún við hagnýtingu rannsóknanna til að hafa stjórn á heilbrigðisvandamálum.

Faraldsfræðingar fást við rannsóknir á útbreiðslu og orsökum sjúkdóma hjá hópum manna. Meginviðfangsefni rannsóknanna er samband áreitis (exposure) og endapunkts (outcome).

Áreitin geta verið margvísleg. Oftast tengjast þau aukinni hættu á að veikjast af tilteknum sjúkdómi og kallast áhættuþættir. Sem dæmi má nefna reykingar, krabbameinsvaldandi efni í fæðu, mengun sem tengist atvinnu, háan blóðþrýsting, vírussýkingar og meðfæddar stökkbreytingar í sjúkdómsgenum. Áhrif annarra áreita eru til þess fallin að draga úr líkum á tilteknum sjúkdómum. Í þeim flokki eru meðal annars afoxandi efni í fæðu, brjóstagjöf, bólusetningar og fræðsla um skaðsemi reykinga. Endapunktar rannsóknanna eru oftast sjúkdómar en geta einnig verið slys, dauðsföll, mótefni í sermi, tiltekin áhættuhegðun og fleira.

Þar sem efniviður rannsókna faraldsfræðinnar er fólk, er grundvallarmunur á henni og öllum öðrum aðferðum til að rannsaka orsakir sjúkdóma. Það er bæði styrkleiki og veikleiki faraldsfræðinnar að maðurinn skuli vera viðfang rannsóknanna. Styrkurinn felst í því að ekki leikur vafi á að niðurstöðurnar megi yfirfæra á lifandi fólk, á meðan sá vafi er oftast til staðar varðandi niðurstöður sem byggjast á dýratilraunum eða rannsóknum á vefjum, frumum eða smærri einingum.“

(Heimild: Vísindavefur Háskóla Íslands.)