Viðmið

Lífsýni

Lífsýni sem safnað er frá þátttakendum í vísindarannsókn:

1. Söfnun lífsýna frá þátttakendum í vísindarannsókn er á ábyrgð innlends aðila, vísindamanns eða læknis viðkomandi þátttakanda (t.d. vegna fyrstu kynningar fyrir væntanlegum þátttakanda) sem ber ábyrgð á framkvæmd verkefnisins. Samkvæmt lögum (nr. 110/2000) má varðveita lífsýni, sem aflað er vegna tiltekinna rannsókna (og ekki ætluð til varðveislu í lífsýnasafni) í allt að 5 ár. VSN getur veitt undanþágu frá þessari reglu, þ.e. gefið leyfi fyrir tímabundinni varðveislu lengur en 5 ár.  

2.  Ábyrgð á öllum þáttum í framkvæmd rannsóknar, þmt meðferð lífsýna og annarra gagna hvílir á herðum ábyrgðarmanns. Sé um að ræða alþjóðlegt samstarfsverkefni skal innlendur ábyrgðarmaður fyrir þeim hluta rannsóknar sem fer fram á Íslandi bera ábyrgð á öllum þáttum hennar hér, m.a. að leyfa sé aflað frá þeim aðilum sem þarf.

3. Upplýsa þarf þátttakendur um hvernig lífsýni verða tekin og til hvers notuð, hvernig með þau verður farið og hvort eða hvernig þau verða varðveitt. Hið sama gildir um upplýsingar hvers konar sem sýnunum tengjast.

4. Sé fyrirhugað sé að senda lífsýni til annarra landa og þarf samþykki þátttakenda fyrir því. Veita þarf þátttakendum upplýsingar um hvers kyns rannsóknir á að framkvæma á sýnunum ytra, hvar og hvers lengi sýnin verða varðveitt erlendis.  Þetta á ekki við þegar óþarft er að afla upplýsts samþykkis frá þátttakendum (ópersónugreinaleg sýni).

5. Lífsýni má eingöngu senda utan vegna tiltekinna rannsóknarþátta, sem hafa verið skilgreindir í rannsóknaráætlun og hlotið samþykki VSN. Jafnframt skulu lífsýnagjafar upplýstir um þennan rannsóknarþátt og hafa veitt samþykki sitt fyrir sending sýna og meðfylgjandi upplýsinga úr landi. Tiltaka skal ábyrgðarmann fyrir vörslu og eyðingu sýna erlendis eða endursendingu til Íslands.

6. Lífsýni má eingöngu senda úr landi á ópersónugreinanlegu formi. Innlendur ábyrgðarmaður rannsóknarinnar getur geymt dulkóðaðan lista yfir þátttakendur og er ábyrgur fyrir tryggri vörslu hans. Slíkan lykil má undir engum kringumstæðum senda úr landi.

7. Ekki er leyfilegt að senda magn sýna úr landi umfram það sem þörf er á vegna rannsóknarþátta sem tilgreindir eru í rannsóknaráætlun. Leifum sýna skal skilað eftir að rannsókn er lokið. Ef þetta er ekki mögulegt er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar á Íslandi ábyrgur fyrir eyðingu sýnanna eða leifa þeirra í lok rannsóknar.  Þetta ferli skal skilgreina í rannsóknaráætlun.

8. Flutningur lífsýna til ótímabundinnar vörslu erlendis er háður leyfi VSN.  Almennt verður ekki veitt leyfi til þessa nema að ljóst sé að réttinda og hagsmuna íslenskra lífsýnagjafa sé gætt í hvívetna, og á sama hátt sem sýni þeirra væru vistuð í íslenskum lífsýnasafna.

Sýni sem fengin eru úr íslenskum lífsýnasöfnum:

1. Notkun lífsýna sem fengin eru úr íslenskum lífsýnasöfnum skal vera í samræmi við lög nr. 110/2000 um lífsýnabanka og reglugerð nr. 134/2001 um vörslu og nýtingu lífsýna í lífsýnasöfnumum.

2. Flutningur sýna úr íslenskum lífsýnasöfnum er háður leyfi VSN og þær reglur/viðmið sem lýst er hér að framan eiga einnig við í slíkum tilfellum. 

3.  Athygli er vakin á því að meðal látinna lífsýnagjafa kunna að vera einstaklingar sem hafa afturkallað ætlað samþykki sitt fyrir því að sýni þeirra, tekin vegna þjónustu eða meðferðar, verði vistuð í lífsýnasafni til notkunar vegna vísindarannsókna. Sé sú raunin, er að sjálfsögðu ekki heimilt að lífsýni frá umræddum einstaklingum séu notuð.