Viðmið

Börn

Ísland hefur fullgilt Sáttmála Evrópuráðsins um vernd mannréttinda og mannlegrar reisnar á sviði hagnýtrar líflæknisfræði með hliðsjón af starfsemi á sviði líffræði og læknisfræði og Viðbótarbókun um læknisfræðilegar rannsóknir á mönnum. 

Rannsóknir með þátttöku barna eru bundnar ákveðnum skilyrðum.  Þetta er í samræmi við alþjóðlegar siðareglur læknavísinda, enda er viðurkennt að börn eigi að njóta sérstakrar verndar og friðhelgi.

Eftirfarandi skilyrði eru höfð að leiðarljósi þegar metnar eru umsóknir um rannsóknarverkefni með þátttöku barna:

  1. Rannsóknina er ekki unnt að gera á fullorðnum, lögráða einstaklingum með sama vísindalega árangri.  
  2. Afla skal upplýsts samþykkis foreldris eða forráðamanns.  Eftir því sem þroski leyfir skal einnig afla samþykkis barns. Ekki má krefjast þátttöku barns, hreyfi það mótbárum.
  3. Bæði foreldrar/forráðamenn og barnið sjálft skulu fá upplýsingar um fyrirhugaða rannsókn í samræmi við reglur. Upplýsingar til barns skal útbúa með hliðsjón af þroska þess og málskilningi.
  4. Sé um að ræða meðferðarrannsókn skal inngripið, sem til rannsóknar er, vera líklegt til að vera jafn gagnlegt og önnur meðferð sem í boði er.

Meginreglan er sú, að þátttaka barns í rannsókn komi heilsu þess til góða með beinum hætti. Þó má gera undantekningar frá þessu, að uppfylltu skilyrði eitt hér að ofan, en auk þess þarf að mega gera ráð fyrir að niðurstöður úr rannsókninni geti á endanum leitt til ávinnings fyrir einstaklinginn sem um ræðir, eða aðra einstaklinga í sama aldurshópi eða þá sem haldnir eru sama sjúkdómi eða heilsufarsröskun og þátttakandi. Jafnframt skal rannsóknin hafa lágmarksáhættu eða áþján í för með sér fyrir barnið.

Viðmiðin fyrir þátttöku barna í rannsóknum eiga að mestu einnig við um aðra viðkvæma hópa.